top of page

Í HULDUHEIMUM
 

~ Auður Jónsdóttir rithöfundur

Kona í sjóbláum vinnugalla útötuðum í málningarslettum stendur við afgreiðsluskenk og stráir kanel yfir kaffi. Skammt frá skenknum hanga á vegg vinaleg andlit bolabíta sem urðu ódauðlegir í meðförum hennar, konunnar sem kenndi Reykvíkingum að krydda kaffið sitt, býtta á snjáðum kiljum við hillur kaffihússins og meta bolabíta þó að kaffihúsið bæri nafnið Grái kötturinn.

Við fyrstu kynni varð Grái kötturinn útlönd á Íslandi í augum kaffiþambandi ungskálda sem voru aldeilis upp með sér að babla við sér eldra fólk um sannleik allífsins í bland við þjóðmálin; þetta fólk var ýmist klætt í vinnugalla eða hátískufatnað meðan það hámaði í sig sírópsblautar pönnukökur yfir brakandi dagblöðum en ungskáldin dreyptu hátíðleg á púrtvíni með kaffinu, staðráðin í því að vera eins mikið í útlöndum og framast var kostur. Andi kaffihússins var alþjóðlegur á svo heimilislegan hátt að kaffihúsagestir þóttust vissir um að hann hefði verið þarna alla tíð. Þannig efldist skynvilla með hverjum kaffisopanum sem seytlaði ofan í magann, smám saman fennti yfir veröldina fyrir utan svo ekkert lifði nema stundin á þessum stað.Dulúðugust var konan í vinnugallanum. Með kisuaugu en góðlátlegt fas bolabíts og lágstemmdan, seiðandi róm sem falaðist eftir fréttum. Alls óvænt hafði hún skapað þennan töfrastað sem á sínu blómaskeiði var eitt tímabærasta listaverk sem Reykjavík hefur státað af, fyrr og síðar. Konan kærði sig kollótta um það þegar hún spurði kúnnann hvað honum fyndist um pólitíkina og hló djúpt en hæversklega við að heyra hann viðurkenna að sér litist betur á tíkina á veggnum, elskulegt greppitrýnið sem öðlaðist hærri sess í mannkynssögunni við að gnæfa yfir orðum úr munni skapara síns – og þá á ég ekki við guð heldur Huldu Hákon.Huldu sem kastar netum í hafsjó minnisins, þess sem kúrir í hausnum á Íslandi og um leið í seigfljótandi huga mannkyns; þaðan fiskar hún augnablik sem verða að sögu og það er áhorfandans að botna söguna, líkt og sögu hundstíkurinnar sem er greypt í efni og veit ekkert í sinn haus; þannig verður sjókonan Hulda að hagyrðingnum Hákon sem kastar fram stöku af sömu snerpu og netum, fengsæl með eindæmum. Hún matreiðir augnablikin með fágætu kryddi en við trúum að hún hafi fangað þau fullsköpuð – og líkast til gerði hún það eftir allt saman því þau bjuggu handan hugarflugs okkar, dagsönn um leið og við skynjuðum þau og skildum að þau höfðu búið í minninu um aldir alda. Það þurfti seiðkonu til að kasta netum ofan í óminnisdýpið. Sjókona, sögukona, förukona með heiminn í höfðinu og Ísland í augunum þegar hún segir hnyttnar sögur og sörverar amerískan morgunverð í lopapeysu undir vinnugallanum meðan hundamyndir hennar kveikja hugmyndir í kollum nærstaddra. Örlát húsfreyja sem býður öllum að stíga inn í veröld sína.

Hún er veröld út af fyrir sig. Lína Langsokkur og Salka Valka í senn, sveitastelpan Hulda Margrét sem fór út í heim, alla leið til New York, og sneri aftur sem listamaðurinn Hulda Hákon, þessi með röntgenaugun og næmt eyra fyrir hálfkveðnum vísum. En líkast til sá hún gegnum fjöll og firnindi allan tímann. Hún sem var vön að fara í sveit til ömmu og afa á Gauksmýri í Línakradal, V-Húnavatnssýslu, og þar var gott að spranga um holt og hæðir, skima eftir álfum og tröllum, spjalla við Gretti Ásmundsson á hvítum sumarnóttum, vaka með hröfnum á sumarsólstöðum.Í huga sveitakrakka verða dýr og menn eitt, þau eru verurnar í veröldinni, undrin sem mæta augunum á hverjum degi. Meira að segja fjöllin hrjóta á næturnar meðan söguhetjur úr bókum fara á stjá, gráir fjósakettir pússa stígvélin og grágæsir skiptast á gróusögum; veröld sveitakrakkans er dularfullur staður þar sem hann er kóngur í ríki sínu og les umhverfið á sinn hátt. Og þeir eru ófáir sveitakrakkarnir sem þverskallast við að leyfa nokkrum manni að skera úr sér augun þegar fram líða stundir, sama þótt þeir fari til New York og skipti um nafn, enda margt hlutskiptið verra en vera heimsborgari ofan úr sveit. Kannski var hún dæmd til þess hlutskiptis, stelpuskottan sem flutti til Keflavíkur fimm ára og lærði að tala amerísku við Kanakrakka en átti þessa ágætu ömmu í sveitinni, Kristínu Margréti Jósefínu Björnson, sem hafði lært hjúkrun í Bandaríkjunum, skrifaði skáldskap undir dulnefninu Ómar ungi og kallaði hana ýmist honeypie eða sugar.Honeypie! Ertu þá farin?
Já, ég ætla til Ameríku.
Gangi þér allt í haginn, sugar.Hulda hélt til Bandaríkjanna þegar hún hafði útskrifast úr nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979. Ung móðir með nærbuxur til skiptanna en endingargóðan eiginmann í farteskinu.

Heima hafði leikgleði Dieters Roth hrist dálaglega upp í hugmyndum fólks um list og heimamenn á borð við Rúrí og Súmmarana höfðu ekki látið sitt eftir liggja. Í Bandaríkjunum upplifði Hulda þó leikgleði myndlistarmanna sem aldrei fyrr, langtum meiri leikgleði en í Evrópu. Í stuttu máli sagt var hún komin í feitt. Hún stundaði nám við The School of Visual Arts í New York og útskrifaðist úr skúlptúrdeild árið 1983 – en samtímalistamenn skáka kennurunum. Þarna veður hún bókstaflega í marglitri listaflóru borgarinnar eins og skellihlæjandi krakki hoppandi milli polla í gúmmístígvélum. Á slíkum gróskutímum að pollarnir eru úr plasti og stígvélin úr vatni. Bóndinn á bænum enginn annar en Andy Warhol sem setur lit á listavarginn í sinni sveit og flóran þrífst svo vel á túnunum að listamenn á borð við Jeff Koons spretta hratt, óþreyjufullir að blómstra meðan þeir selja verðbréf á Wall Street. Spútnikkar framtíðarinnar renna saman við Pop-listamenn sjötta áratugarins og eitt augnablik verður allt sem eitt. Á sama augnabliki geispar sveitastelpa yfir kaffibolla á fjölmennu stræti og veit að hún er hluti af hugmyndaþróun sem bullar og sýður á þessum stað.Hvað hafði afgerandi áhrif hvenær? Ef til vill er aldrei hægt að svara slíkri spurningu endanlega þegar sannur listamaður á í hlut, fullmikil einföldun að útskýra einn með öðrum án þess að telja til þúsund önnur atriði sem margfalda sig á augabragði. Í verkum Huldu býr svo margt að það mætti telja upp listamenn út í hið óendanlega, þekkta jafnt sem óþekkta, sem gætu mögulega hafa haft áhrif á hana á lífsleiðinni, þó að Grettir sterki beri líkast til sigurorð af þeim öllum.Aðal Huldu felst meðal annars í því hversu erfitt er að staðsetja hana. En það má reyna. Getur verið að hún hafi orðið pínulítið skotin í listamönnum sem léku með samspil orða og mynda eins og hinum fjölþjóðlega Jean-Michel Basquiat í New York; hann tók fyrstu skrefin sem graffíti-listamaður en þróaðist yfir í ný-expressionískan málara meðan hann drakk í sig vinskap við Andy Warhol og David Bowie af sömu áfergju og fljótandi eiturlyf. Eða þá háðfuglinum Jörg Immendorff í Berlín; hann var félagi í þýsku listahreyfingunni Neue Wilde og bæði frægur fyrir skúlptúra og málverk. Kannski var Jeff Koons meira skotinn í þeim. Hver veit hver var skotinn í hverjum? Þetta eru allt saman getgátur. En til að vita þarf að geta. Og þá má náttúrlega ekki gleyma öllum -ismunum.Ef til vill höfðu nýi expressionisminn og nýi prímitívisminn meiri áhrif á Huldu en margt annað. Það er erfitt að segja því á þessum tíma þyrluðust ismarnir eins og laufblöð í stormi um stræti New York: Póstmódernismi, fígúratífur ný-expressionismi kenndur við Neue Wilde, amerískt raunsæi, list minnihlutahópa, exótísk list frá þriðja heiminum, list naívista, list frumbyggja og tilraunakennd list ólíkra listamanna með orð og myndir. Og hvað með Duchamp og dada? spyr líklega einhver. Í upphafi aldarinnar hafði raunar flætt yfir heiminn orðaflóð ýmissa -ista: Dadaista, fútúrista og súrrealista. Um hægðist í módernískum vindum um miðbik aldarinnar en svo skall aftur á orðahríð í poplist, Fluxus og hugmyndalist tuttugustu aldar. Svona má endalaust halda áfram, meira að segja rekja listamanninn aftur til ítalskra endurreisnarmálara sem máluðu samskipti heilags anda og Maríu meyjar í orðum. Já, eða hellalist ef út í það er farið og einhver treystir sér til að færa rök fyrir því. Líklega býr þetta allt í henni Huldu og miklu miklu miklu meira. En undirrituð er ekki listfræðingur heldur rithöfundur svo hér víkja staðreyndir fyrir skynjun. Ég tek mér það bessaleyfi að bregða upp augnablikum:

En fyrst! Sjáðu fyrir þér ólgandi grænan sjó, skipverja að kúgast yfir pylsum brasara á ryðdalli, það er níundi áratugur tuttugustu aldar og klukkan er 15.39 þegar fullskapaður listamaður rís upp úr sænum, hristir af sér hvítfreyðandi löðrið og greipir nafnið Hulda Hákon í huga sjófarenda. Spriklandi sæskrímsli eins og á konfektkassanum sem amman Kristín Margrét Jósefína hafði sent henni til New York: Á kassalokinu var mynd af gömlu Íslandskorti sem eignað var Guðbrandi Þorlákssyni. Þar er sjórinn í kringum landið fullur af skrímslum. Fljótlega eftir að ég fékk konfektið fóru skrímslin að rata inn í myndirnar mínar, sagði Hulda í einhverju viðtalinu.Löngu síðar átti hún eftir að gera myndaröð úr sjóskrímslunum sem samanstóð af átta lágmyndum sem voru gerðar með akríllitum á hydrostone og MDF – svo ég leyfi mér að tala skrímslamál. Svona hafa hlutirnir skemmtilegan hátt á að verða til. Hvert augnablik á sína hlutdeild í því sem verða vill.

Í augnablikinu standa Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson á tröppum gamla Safnahússins. Þeir stara út í veröldina. Steyptir í efni listamannsins, nauðbeygðir að standa þarna um alla eilífð, óþægilega manneskjulegir hlið við hlið. Minnisvarðinn um þá hefur annan blæ en minnisvarðarnir um alþjóðlegu fótboltahetjurnar sem Hulda reisti líka. Þetta er minnisvarði um menn í samlitum jakkafötum sem munu skreyta veggi minjasafna um ókomna tíð. Þeir eru þekktir að góðu og illu, það fer eftir augnablikum sögunnar. Hvenær hver horfir á þá. Sumum kann að þykja þeir standa of nærri okkur, sjálfsagt þykir þeim nóg um hve nálægt þeir standa hvor öðrum. Verkið tilheyrir séríu þar sem Hulda hefur skeytt saman frægum persónum svo úr verða dægurpör; það er óður til síbylju fjölmiðlanna og masins í þjóðarsálinni. Dægurstjörnurnar Andrea Gylfadóttir og Ragnhildur Gísladóttir standa hlið við hlið og andspænis þeim gæti áhorfandinn hugsað: Þær voru, eru og verða. Hvert par segir sína sögu um fólkið sem skrifar og les um það á degi hverjum; frægt fólk er birtingarmynd þjóðarinnar sem gerir það frægt. Tíðarandinn breytir því stöðugt lágmyndinni af Ólafi og Davíð. Verkið er allt annað en það sem leit dagsins ljós fyrir fjölmiðlafrumvarpið. Annað verk en það var fyrir kreppuna. Annað verk en það er í miðri kreppunni. Hvert eðli þess verður í framtíðinni er ómögulegt að segja. Kannski þarf aðra þjóð til að lesa í hana. Kannski þvælumst við of mikið hvert fyrir öðru í fámenninu til að sjá nokkuð.

Í augnablikinu stendur fólk þétt upp við hvert annað, önnur hver manneskja snýr að þeirri næstu og horfist í augu við hana, þarna er þröngt á þingi og þrúgandi kraðak, þykist áhorfandinn skynja. Og þó! Einhverjum kann að þykja kraðakið notalegt. Kannski einhver finni huggun í fullyrðingu verksins: Allir þekkja alla og allir eru tengdir í norðanvindunum út við sjóinn.Í augnablikinu þyrpast grágæsir saman, troðast hver um aðra þvera og stara á okkur, þúsund augu í grárri þvögu. Þær ylja sér hver upp við aðra á sama tíma og þær kæfa hver aðra, náskyldar eins og fólkið í norðanvindunum út við sjóinn. Geta þær án hver annarrar verið? Þetta verk kallast á við annað verk eftir Huldu þar sem áhorfandinn er ávarpaður í anda lenskunnar, sumir myndu segja á góðlátlegan hátt, aðrir á yfirþyrmandi hátt. Hvert á sinn hátt skynjum við ávarpið: Hverra manna ertu?

Í hverju verki lúrir spurning. Stundum lúmsk, stundum beinskeytt. Stundum ósögð, stundum á íslensku, stundum á ensku. Oftar en ekki varpar enskan ankannalegu ljósi á kunnuglegan norðangarra í dumbungslitunum svo gæsir þyrlast upp í himininn og fólk hættir um stund að horfast í augu, allt gæti tvístrast hvað úr hverju. Allt virðist annarlegt. Fæstir vita hvert skal horfa í umskiptunum, fálmandi velta þeir fyrir sér inntaki augnabliksins, andstæðum sem lýsa hver aðra upp eins og tunglið jörðina. Þeir spyrja. Leita spurningar. Spurninganna.Hver veit nema ágengustu spurningarnar búi í fullyrðingum eins og þeirri í bláa rammanum: Þú ert varkár og tekur engar óyfirvegaðar ákvarðanir, virðir gamlar hefðir, en lætur þær ekki koma í veg fyrir umbætur.Sumar spurningarnar eru lævísar. Are you waiting for someone? spyrja hvítir stafir á stálbláum grunni. Og það er þitt að svara. Stundum bíður maður einhvers, Stundum óafvitandi. Stundum bæði og. Því tilveran er sjaldnast svarthvít. Öllu heldur stálblá, í og með hvít. Þokugrá, mýrargul og mosabrún. Sægræn.Hulda leikur með grámóskuna. Varpar ljósi á skugga, stígur inn í grámann og galdrar kanínu upp úr hattinum sínum. Allt á sér sinn stað í Hulduheimum. Ósýnilegur sögumaður segir torræðar sögur af bændum og búaliði á menntamannaensku. Fuglakraðak yfir gráum sjó verður hráslagalegt á áður óþekktan hátt í samfloti með setningunni: Ignorance is prevalent elsewhere and its superstition find no support here.Sjálfsbirgingsleg setningin vaggar undir einlitum fuglunum, fjúkandi um í nöturköldum sauðalitum. Áhorfandi hryllir sig meðan sá næsti lætur heillast. Verkið er eins íslenskt og Þingvallamynd eftir Kjarval. Gæti meira að segja vakið heimþrá hjá stúdenti í erlendri borg. Söknuð eftir hrútspungum á þorranum. Gasprinu í ömmu. Sumarafleysingum á sjó. Áhorfandinn getur lesið bæði sjálfhverfu og stolt úr myndinni, það ræðst af augnablikinu. Ekki er sama hver horfir hvenær og hvar, hvort það er ungur maður í Kína, miðaldra kona í Beverly Hills eða barn á Íslandi.Hulda leggur á borð fyrir áhorfandann en lætur honum eftir að smakka meðan hún leikur galdrakúnstir með tímann og landafræðina; rýnir fráneyg í hið liðna og hið ókomna. Hún þorir að gagnrýna, uppfull af húmanisma sem einkennist ekki síst af áherslu hennar á ófullkomleika: Fegurðina í ljótleikanum, skekkjurnar í forminu, furðurnar í hversdeginum, glettnina í ljóðinu og ljóðið í glettninni; forneskjuna í nútímanum, nútímann í aldarminninu, kanelinn í kaffinu.
Hvert verk er aðgöngumiði inn í lygilega dagsanna veröld.

Það hlaut að vera hún sem varð hugsi yfir safni kassa með prívateigum Kjarvals. Opinberir starfsmenn höfðu samviskusamlega skráð og flokkað þær ofan í litla, vandlega merkta pappakassa. Hvern og einn einasta smágrip listamanns sem í lifanda lífi komst handan við takmarkanir tímans en er nú niðursneyddur í ullarsokka, málningartúpu og kaffibolla. Hlutskipti listamanns í þjóðareign felst í því að vera handfjatlaður af ókunnugum sem sortéra tilveru hans eftir nýmóðins aðferðum.


Hulda stillir upp framhliðum af pappakössum með áletrunum líkt og á kössunum. Leiðir okkur í sannleika um eftirlífið hjá hinu opinbera án þess að hafa um það mörg orð. Það má prófa að spyrja hana af hverju.
Hún gæti hryllt sig, hún gæti flissað og sopið á kaffi. Ólíkindatól sem tjáir hringiðu heimsins af lífskrafti og næmi, skáld sem sver sig jafnt í ætt við þjóðsagnaritara og rússneska fáránleikahöfundinn Kharms; stöku sinnum grillir í líkindi með Huldu og samtímaskáldunum Sjón og Gyrði, jafnvel Jóni Kalman eða Megasi – og samt ekki því Hulda er svo fjarska mikið Hulda. Sem segir örsögur í einni setningu sem þúsundfaldar augnablikið svo það verður um stund miðja alheimsins. Hver saga tilfinning.


Meðan sumir finna kímnina vella upp í sér uppgötva aðrir djúpt grafna sorg eða einmanaleika. Blendnar tilfinningar gera vart við sig andspænis kössum merktum eigum Kjarvals eða þúsundustu gæsinni sem starir tómum augum út í heiminn. Í öðrum verkum býr von, í mörgum hvoru tveggja. Þau eru full af öllu og engu, staðreyndir sem minna á glerbrot í sólskini, ný við hvern snúning. Einhvers staðar skín sólin yfir höfðum fólks í keimlíkum fötum sem aðhyllist ólíka lífstíla að sögn verksins sjálfs, svo virðist sem það sé óhagganlegt en eitthvað fær suma til að óska sér að fólkið væri að baða sig í sólinni. Í verkinu býr hlutleysi sem fyllir mann kulda og einmitt þannig vindur verkið kvæði sínu í kross, það verður allt annað en hlutlaust.


Þau eru fleiri verkin sem eru óþægilega hlutlaus og hlutlæg í senn. Fá verk eiga betur við nú á ólíkindatímum en There must be ...


Logar leika hver um annan, þeir líkjast brennandi akri á heimsenda ef ímyndunaraflið fær að blása í glóðirnar. Í logana er grafið: THERE MUST BE SOMEBODY SOMEWHERE DOING SOMETHING.
Eins og talað úr hjarta íslensks samfélags vorið 2009.


Eins og talað út úr hvers manns hjarta þá og nú.Í Hulduheiminum lifa samfélög fyrri alda í nútímanum, samfélög dýra og manna verða eitt, alþjóðasamfélagið erkiíslenskt og það íslenska töfrum slungið. Þar þrífast goðsagnir, skrímsli af fornum kortum og alþýðusögur; frásagnir sveitamanna af villtum dýrum, forynjum og kynjaverum. Vættirnar renna saman við hreinræktaða hunda, dægurstjörnur, fólk með ólíka lífshrynjandi, hagfræðivofur og bardagahetjur úr Íslendingasögunum sem hafa endurfæðst í fótboltastrákunum hennar Huldu, myndaseríu sem minnir okkur á að afrekskappar í goðsagnakenndum kringumstæðum lifa víðar en í fornum skruddum. Hetjurnar birtast okkur í búningum sínum á flóðlýstum fótboltavöllum áður en þær klæðast aftur hversdagsfötum og hverfa í manngrúann.


Hringrás lífsins, sögunnar og minnisins, snýr veruleikanum á hvolf í anda karnivals svo grágæs lýtur sömu lögmálum og stjórnmálamaður, jafnvel maður sem finnur besta vin sinn í hundi. Það smáa skiptir jú sköpum, til að mynda lætur köttur í New York ekki freistast af gælusönglinu kis-kis, hann hlýðir aðeins kallinu pussy-puss.


Í seiðandi sögunum búa allra þjóða kvikindi, þunglyndur köttur af íslenskum ættum og svefnsjúk hundstík, fiskar sem flæða á færibandi inn í stórar vélar og koma út í strimlum, dásamlegir kraftajötnar, grískir karlar sem ku hrífast af norskum konum, gamlar konur sem ganga aftur í hafdjúpri draumaveröldinni sem þó er eins raunveruleg og EPÍTA. Hvað er EPÍTA?


EPÍTA er hagfræðistærð, raunvirði þegar allir kostnaðarliðir hafa verið dregnir frá, útskýrir Hulda sem hefur mótað EPÍTU berum höndum, krúttlegar en afmyndaðar verur sem glenna út fæturna, bera magann og teygja makindalega úr sér. Ef einhver velkist í vafa um hvernig EPÍTA lítur út hefur hún svarið á reiðum höndum: Getur Epíta ekki allt eins litið út svona og einhvern veginn öðruvísi?Landkönnuðurinn Hulda veit sínu viti. Hún hefur kynnst grimmum rollum, grátgjörnum sjómönnum, huliðsheimagöldrum og öldruðum hermönnum á Wall Street, svo fátt eitt sé upptalið. Hún veit fyrir víst að EPÍTA lítur út eins og afkvæmi sjóskrímslis og bolabíts. Hún veit líka að í minnsta atviki getur falist tilsvar sem endurnýjar veröldina á augabragði; það er nóg að horfa á fólk strolla um götur New York, drekka te með kínverskum munki eða rabba við heimamenn í Vestmannaeyjum til að fiska sögu í netið. Stundum þarf ekki annað en horfa á sofandi hund. Svona lífsreynd manneskja hlýtur að tjá sig á margslunginn hátt.List hennar er súrrealísk, fígúratív, persónuleg, fyndin, ljóðræn, rammgörótt og raunsæ – allt í senn og óendanlega meira – því í verkunum dafna andhverfurnar eins og rósir á mykjuhaug. Lágmynd segir launfyndna sögu um angurværð. Önnur saga er sögð með samspili skúlptúrs og orða, kannski þykir hún kómískt krítísk eins og mörg verk hennar. Já, eða elskulega ágeng. Svo eru aðrar sögur úr öðru efni, ískaldur kopareldur segir sögu af brennandi blómi, sjálfri andránni. Þó gildir einu hvernig gripurinn er búinn til, handbragðið er auðþekkjanlegt.Handverkið skipar veigamikinn sess í flestum verkanna, það er mjög persónulegt og flest þeirra státa af sterkum sérkennum listamannsins. Þá sérstaklega grófar útlínur fígúra sem Hulda leggur sig fram um að gera ófullkomnar, oftar en ekki greyptar í krossviðsramma í dumbungslitum sem minna á vorhræringar í jarðvegi eða mosa í rigningu. Lágmyndirnar vinnur hún í leir, tekur síðan sílikonmót af þeim og steypir loks verkið í efnið hydrocal sem er nokkuð líkt gifsi en sterkara. Að síðustu festir hún það á krossramma, málar allt saman með undirlagsmálningu og því næst með akrýlmálningu. Slíkt verk getur tekið vikur, jafnvel mánuði, í vinnslu.


Skúlptúrar hennar taka einnig sinn tíma, sumir greyptir í brons og slípaðir, einhverjir búnir til í Kína til að allt sé eftir kúnstarinnar reglum. Meira að segja verk sem snúast einungis um textann krefjast yfirlegu. En hún nýtur handverksins, þess að móta og steypa og vera með fingurna í öllu; hún gæðir verkin lífi af einlægni og natni sem einkenna þau öll. Hún veit að þau búa yfir nýju efni, nýjum heimi, öðrum heimi.

Á vinnustofu Huldu úti á Granda er óhjákvæmilegt að stíga inn í þennan heim. Þar horfði ég andaktug á kynduga gripina, hvert furðudýrið lá ofan á því næsta. Á endanum varð mér að orði að henni hlytu að leiðast húmorslausir listamenn.


Getur listamaður verið húmorslaus? spurði hún þá og hélt áfram að grafa sig undir eitt verk í leit að öðru. Þarna voru textaverk í römmum innan um dormandi skúlptúrkarla sem hafa ekkert að missa, afvelta epítur og hrafnar að þinga yfir grágæsum svo satt að segja man ég ekki hvað hún dró undan hrúgunni, augun höfðu varla við að skoða. Þegar hún kvaðst hafa verið með vinnustofu í Kína fannst mér sem einhvers staðar hlyti að leynast op að göngum sem lægju alla leiðina þangað. Sennilega leynist það þarna. Það er ábyggilegt að úr vinnustofunni hennar Huldu má finna göng að öllum gáttum heimsins. Stígðu inn í tímalausa alþýðusögu og þú munt heyra allt um hringiðu heimsins því í Hulduheimum búa galdrar. Í þeim eru sögur um þjóð en þó ekki land, sögur um alla veröldina í höfðinu á fugli, sögur um söguna í andránni.


Saga um listakonu sem vingaðist við skip.

Það lá við kajann í Faxafirði þar sem hún hafði áður vinnustofu. Hulda horfði á það á morgnana meðan hún drakk kaffið sitt og fann til sælukenndar að eiga vin í skipinu Sigurði. Dag einn sigldi Sigurður burt og kom ekki til baka. Það var dauft yfir henni sem harmaði að vinurinn hefði endað í brotajárni. Minningin um hann fylgdi henni þegar hún flutti inn í vinnustofu í Vestmannaeyjum, enda ætlaði hún vart að trúa eigin augum þegar Sigurður lá við bryggjuna þarna, kominn í rauð spariföt, vel sigldur og sjóaður. Það var skringileg huggun að sjá gamlan vin og hún fór á stúfana til að grennslast fyrir um hann. Skipstjórinn í brúnni sagði henni að Sigurður væri aldeilis ekki á leið í brotajárn, aflahæsta loðnuveiðiskipið á Íslandsmiðum sem færði ófáum manneskjunum björg í bú. Mikið var hún Hulda glöð að heyra það. Svo glöð að hún fór að lesa aflatölur af viðlíka áhuga og dagblöðin. Það var varla að hún greindi á milli skipstjórans og Sigurðar í áhuga sínum á aflakónginum. Aftur á móti fann hún annað skip sem gegndi eins ólíku hlutverki í skipaheimum og hugsast gat. Úr varð parið SIGURÐUR og varðskipið USS PORTER Á YTRI HÖFNINNI. Dásamlegasta parið í listasögu heimsins.

Hún á vini í skipum og hundum. Hulda sem sér það stóra í því smáa og segir okkur sögu meðan við sötrum kaffi með kanel. Sögu um hundstík sem fær aldrei að deyja því hún verður vakin, aftur og aftur um aldir alda. Mild en ástrík hljóma orð Huldu:My dog sleeps a lot. Sometimes in winter I have to wake her up before it gets dark again.

HULDA HÁKON

bottom of page