top of page

HULDA HÁKON
   
~ Ásdís Ásgeirsdóttir


Er hversdagsleikinn í öllum sínum grátónum endilega svo leiðinlegur? Er ekki hægt að njóta dagsins í dag og sjá í honum alla liti regnbogans? Má ekki gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og finna gleðina í litlum hlutum sem verða á vegi manns og litlum sögum sem sagðar eru af samferðamönnum okkar? Hulda Hákon sækir ekki langt yfir skammt heldur hefur vakandi auga og eyra fyrir því sem umhverfið lætur í té og notar það sem efnivið í verkin sín ásamt því að sækja í fortíðarbrunn íslenskrar menningar. Hulda hefur skapað sér nafn í íslenskum listaheimi síðustu áratugi með sínum lágmyndum og skúlptúrum þar sem leikgleði og einlægni er í fyrirrúmi.


Hulda Hákon fæddist í Reykjavík þann 4. júlí, 1956. Fyrstu árin ólst hún upp á Lindargötunni í Reykjavík en flutti fimm ára gömul til  Keflavíkur þar sem hún hlustaði á þotugný og lærði að tala amerísku við „kanakrakkana”. Níu ára flutti hún aftur til höfuðborgarinnar og gekk í Breiðagerðisskóla. Hún eyddi sumrunum í sveit á Gauksmýri í V-Húnavatnssýslu hjá ömmu sinni og afa. Þar drakk hún í sig sögur um Gretti Ásmundarson og álfa sem áttu bústað í steinum í nágrenninu. Amma hennar, Kristín Margrét Jósefína Björnsson, hafði lært í Bandaríkjunum 1918-1926 og kallaði Huldu gjarnan „honeypie” eða „sugar”. „Ég er svo glöð að hafa fæðst á Íslandi og amma og afi voru hafsjór af fróðleik og dældu í mig þjóðararfinum.”


Hulda útskrifaðist úr nýlistadeild Myndlista- og Handíðaskóla Íslands árið 1979 og fetaði síðan í fótspor ömmu sinnar og hélt í framhaldsnám til Vesturheims. Þar stundaði hún nám við The School of Visual Arts í New York við skúlptúrdeild þar sem hún útskrifaðist árið 1983. Huldu finnst alveg nauðsynlegt að listamenn fari að utan því þeir flytja heim með sér ferskan andblæ sem gerir íslenskt listalíf fjölbreyttara. Hún segir að í Bandaríkjunum virðist ríkja meiri leikgleði en í Evrópu og það átti vel við hana. Það má glöggt sjá í verkum Huldu áhrif sem spruttu uppúr nýja expressionisma og nýja primitívisma níunda áratugarins. Hægt er að sjá hliðstæðu við verk Jörg Immendorff í Berlín og verk Jean-Michel Basquiat í New York og annarra listamanna sem tvinna saman ímynd og texta í listsköpun sinni.
Hulda fetar ekki troðnar slóðir málverksins eins og margir samtímalistamenn gera gjarnan. Oft er sagt um listamenn hennar kynslóðar að þeir séu með Ísland „á heilanum” og er algengt myndefni hjá þeim tengt þjóðernisvitund, menningarlegri sérstöðu og arfleifð okkar Íslendinga. En ekki fara allir sömu leið þar sem sumir listamenn tengja meðvitað framhjá olíuverka-arfleifð listasafnanna og eru ekki í rómantískri þjóðernisupphafningu. Hulda er ein þeirra sem sýnir okkur að menningarleg sérstaða þarf ekki að vera háleit og að áhugi á gömlum siðum og sérvisku getur alveg eins mótað sjálfsmynd nútímamannsins. Hún fetar í fótspor nafnlausra handverksmanna og kvenna og minna verkin oft á alþýðulist byggðasafnanna. Aðferðir Huldu draga dám af alþýðulist og myndir hennar úr tré sem eru skornar og málaðar eru áþekkar gömlum töflum fyrri tíma. Natni hennar ber keim af einlægni gömlu alþýðusmiðanna sem myndskreyttu íslenskar timburkirkjur gegnum aldirnar. Einnig mætti segja að verk hennar líkjast verkum naívista á borð við hinn sænska Bror Hjorth. (f.1894-1968)
Lágmyndaform hefur alltaf heillað Huldu og gerði hún fyrstu slíku mynd sína 13-14 ára gömul. Hún notar oft skyggingar til að plata augað og skapa enn frekari dýpt, en einnig eru myndirnar ekki eins frá öllum sjónarhornum. Hægt er að horfa á þær frá hlið og eru þær þá öðruvísi en ef horft er  framan á þær. Hulda rammar ekki myndir sínar inn, alla vega ekki á hefðbundin hátt. Verkin hennar  eru fígúratív og ekki bundinn við kassalaga-formið, heldur taka oft á sig ýmis form og fer það eftir viðfangsefninu. 


Hún kveðst vinna lágmynd fyrst í leir og tekur síðan sílikonmót af henni. Því næst er verkið steypt í efni sem heitir „hydrocal” sem líkist gifsi en er mun sterkara. Síðan er það fest á krossviðsramma sem hún málar svo með undirlagsmálningu (gesso) og síðast málar hún svo myndina með akrýlmálningu. Hver mynd er lengi í vinnslu, allt upp í mánuð. Hún vinnur allt ferlið sjálf. „Ég hef svo gaman að handverkinu, ég skemmti mér oft konunglega við að móta og steypa. Ég vil ekki fá neinn annan í grunnvinnuna, ég vil hafa fingraförin mín út um allt.”  Hulda hefur upp á síðkastið færst nær skúlptúrnum og verkum þar sem textinn einn og sér er listaverkið. Útilistaverk hafa verið sett upp bæði hérlendis og í útlöndum og er þá viðfangsefnið oft eldur, sem steyptur er í brons og slípaður.

Hugmyndirnar sem búa að baki

Myndlistamenn hafa í auknum mæli orðið meðvitaðri um sitt nánasta umhverfi og gert sér ljósari grein fyrir eigin uppruna. Þó svo að íslensk myndlist sé nú alþjóðlegri en áður fór á tíunda áratugnum að gæta vaxandi tilhneigingar hjá íslenskum listamönnum að fást við spurninguna um sérstöðu okkar í menningarlegu tilliti og okkar þjóðlegu sjálfsímynd. Hulda hræir í upprunanum með tilvísun til goðsagna, hindurvitna, þjóðtrúar og alþýðulistar fyrri tíma. Myndirnar hafa yfir sér séríslenskan blæ þar sem ber mikið á fólki, dýrum og hvers kyns furðuverum. Huldu tekst að skapa eins konar nútímalegt framhald af þjóðsögum þar sem vinir og ættingjar, frægt fólk úr þjóðfélaginu og jafnvel hundar og kettir stíga fram á sjónarsviðið. Jón Páll heitinn, kraftajötunn, er jafn mikil persóna í hennar heimi og Grettir sterki. Hún hefur búið til sinn eigin goðsagnaheim sem hún setur saman úr spýtum og gifsfígúrum. En goðsögur og þjóðsögur eru enn að fæðast og eru lágmyndir Huldu til marks um það. Þær eru nútímalegar þjóðsögur og goðsögur og er ekkert sem mælir gegn því að að þjóðsögur og ævintýri geti ekki átti sér uppruna í sérstæðu ímyndunarafli ákveðins listamanns. Það sem skiptir máli er að Hulda kannar uppruna sinn og menningu á nýjan og persónulegan máta. Þó að margar myndanna mætti tengja við gamlar íslenskar goðsögur finnst Huldu gaman að fást við sögur sem gætu eins átt við núið. „Sagan endurtekur sig sífellt og mér þykir svo vænt um að vera manneskja á jörðinni með sömu upplifanir og fólk hefur haft í þúsundir ára.”  


Oft má sjá á myndunum hóp af fólki, andlitum eða fuglum. „Við búum í svo litlu samfélagi og það er svo þröngt um mann, þess vegna er svona mikil innilokunarkennd í myndum mínum, þær eru eins og Íslendingar eru gjarnan, eins og síld í tunnu. Það getur bæði verið þrúgandi að vera í svona mikilli nálægð við fólk, en á hinn bóginn getur það líka verið þægilegt og hlýtt og veitir manni öryggiskennd, kannski þessi samkennd sem fylgir því að tilheyra lítilli þjóð.” 


Myndirnar eru oft fullar af leikgleði; þær segja litlar sögur, en það er áhorfandans að túlka þær eftir sínu höfði. Hulda notar sjaldan bjarta eða skæra liti, nema þá helst í blóma- og eldmyndum sínum. Fólkið, dýrin og verurnar sem hún málar eru oft í dimmum og daufum litum og segist hún hreinlega sækja litaskalann sinn í þetta dæmigerða íslenska veðurfar. Fólkið hennar virkar oft stíft og einsleitt, eins og Íslendingar eru gjarnan. Það er ekki brosmilt en ekki heldur fýlulegt, en frekar alvarlegt á svip. Það ríkir ró í myndum hennar og fólkið er sjaldnast á hreyfingu; það stendur hreyfingarlaust með hendur niður með síðunum. Það minnir á teikningar sem börn gera og kannski þess vegna eru myndirnar svo kunnuglegar; af því að flestir hafa teiknað svipaðar fígúrur í bernsku. Mér finnst þær kveikja í óljósum minningum úr æskunni, þó svo að Hulda sjálf segist ekki meðvitað nota sína eigin bernsku í verk sín, en sennilegast síast alltaf eitthvað með því enginn flýr sína fortíð.  Kannski eru verk hennar eins konar óður til fortíðarinnar. „Mér þykir vænt um að við skulum eiga okkar sögu sem geymir þetta óþrjótandi myndefni. Og ég held að ástæðan fyrir því að fólk tók eftir myndunum mínum úti sé einmitt sú að í þeim var að finna nýtt efni, nýjan heim, annan heim, minn heim og míns fólks.”


Annað sem einkennir fólkið hennar Huldu er að það virðist oft vera í eins konar biðstöðu. Persónurnar virðast vera að bíða eftir að eitthvað gerist, eitthvað sem kannski hefur aldrei gerst eða mun aldrei gerast. Og þó, kannski er ekkert nýtt undir sólinni og allt getur gerst en það fær áhorfandinn sjálfur að ákveða. Það ríkir skemmtileg eftirvænting í mörgum mynda hennar; einhver lítil örsaga sem hefur hvorki upphaf né endi. Alveg eins og í ljósmyndum Cindy Sherman eru margar mynda hennar lítil frosin augnablik úr hversdagslífinu sem standa fyrir sínu og kannski er ekki nauðsynlegt að klára söguna.. „Ég hef verið að þvælast í  heimininum í mínu umhverfi og ég vil frekar að verk mín séu spurningar og svarið getur svo verið hjá áhorfandanum; það eru svo mörg svör. Til dæmis vekja myndir af hröfnum ekki upp sömu upplifun hjá Grænlendingum eða Kínverjum og hjá Íslendingum, en það skiptir ekki máli.”



Textarnir hennar Huldu
Textanotkun í myndlist er ekki ný af nálinni. Dadaistar og súrrealistar notuðu gjarnan texta í verkum sínum á síðustu öld. René Margritte gerði tímamótamynd sína „Ceci nést pas une pipe” árið 1926 þar sem myndin er einmitt af pípu og spilar þá inn á mótsögnina sem það felur í sér. (Mynd af pípu er ekki pípa í raun!) Eins notaði Marcel Duchamp texta þegar hann tefldi fram klósettskál sinni undir heitinu „Fountain” sem breytti þá algerlega verkinu.


Hulda notar mikið texta og leikur sér þá gjarnan að einstökum setningum sem fá áhorfandann til að staldra við og brosa því kímnin er aldrei langt undan. Þeir eru yfirleitt kjarnyrtir, stuttir og vekja fólk til umhugsunar. Hjá Huldu spretta þeir oft upp sem ákveðin hugsun á undan verkinu. Textarnir eru ljóðrænir, en samt lausir við alla bókmenntahyggju sem skyggt gæti á hið sjónræna. Þeir koma úr ýmsum áttum; hún segist lesa allt mögulegt, gamlar þjóðsögur jafnt og viðgerðarbæklinga og sækir þangað innblástur eða uppýsingar sem hún fær einnig úr umhverfinu. Oft notar hún sögur vina sinna sem efnivið í myndir, þó svo að ekki sé alltaf vitnað beint í sögurnar, heldur frekar hugmyndina á bakvið söguna. Hulda segir: „Ég reyni að lifa frekar fjölbreyttu lífi eða það má kannski segja að ég sé fíkin í skemmtilegt fólk og þeirra hversdagssögur, og það verður oft kveikjan að hugmynd fyrir verki, stundum eru sögurnar svo absúrd!” Sem dæmi af sögum sem hún hefur notað er saga vinkonu hennar, sem er listakona og var eitt sinn stödd í Kína. Hún var í fínu matarboði þar sem staddir voru kínverskur bóndi og kínverskur múnkur. Bóndanum þótti ákaflega mikið til hennar koma, vestræna listamannsins, en leit niður á múnkinn. Vinkonunni fannst múnkurinn merkilegur, en bóndinn heldur leiðinlegur en múnkurinn leit upp til bóndans. Úr þessari sögu varð til listaverkið „The Architekt blamed...” þar sem verkið er bjöguð og skökk bygging sem stendur á hringstopli. Á hringinn er letrað að arkítektinn kenndi byggingameistaranum um, byggingameistarinn kenndi verkfræðingnum um og verkfræðingurinn kenndi arkítektinum um og ef maður les þetta hringinn, kenna allir þeim næsta um hvað illa til tókst með bygginguna.


Önnur hugmynd fæddist af eftirfarandi sögu sem Daníel Magnússon, myndlistamaður og vinur hennar, sem hafði verið vélstjóri á skipi, sagði henni endur fyrir löngu.: “Eitt sinn var kokkur sem ráðinn var á bát. Hann reyndist svo lélegur kokkur að strax eftir fyrsta daginn stímuðu sjóararnir banhungraðir í land og skildu hann eftir með tárin í augunum” segir Hulda. Þetta er sagan á bak við útilistaverk sem hún setti upp við strandlengju Eistlands í tilefni að mikilli alþjóða sýningu sem haldin var þar árið 2003. Texti verksins er á eistnesku en er svona í íslenskri þýðingu: ...eftir einn dag þegar hann hafði matreitt morgunmat, hádegismat og kvöldmat voru sjómennirnir orðnir reiðir. Allt sem hann eldaði var hræðilegt, svo þeir stímuðu í næstu höfn og skildu kokkinn eftir.


Hulda hefur líka unnið myndir þar sem textinn sjálfur er viðfangsefnið, t.d. hefur hún letrað með gullstöfum beint á veggi eða málað á striga og eru þá textarnir hugleiðingar og stundum skemmtileg þversögn, eins og í verkinu: I try, but can´t get excited over monochrome paintings, en þar er textinn einmitt letraður á einlitan striga. 


Nýleg verk eftir Huldu fjalla um EBITUNA. Það er orð sem vakti áhuga Huldu. Það hljómar um allan bæ og allir tala allt í einu um EBITU. (Það þýðir í stuttu máli rekstrarkostnaður fyrir fjármagnsliði) „Getur ekki verið að við eigum öll okkar EBITU, til dæmis þegar við horfum til lífshamingju?” spyr Hulda. Hún ákvað að gera myndir af EBITUNNI. Þegar ég spurði hana hvaða tengsl, ef einhver, væru á milli til að mynda leirfígúru og EBITU, svaraði hún: „Það er ekki til nein mynd af EBITU. Getur hún ekki alveg eins litið svona út?”


Hulda notar til skiptis íslenska og erlenda texta en þeir íslensku er margir hverjir svo sér íslenskir að einungis Íslendingar geta raunverulega skilið þá. Gott dæmi er textinn: „Hverra manna ertu?” Hver hefur ekki heyrt þessa margtuggðu setningu hér í fámenninu þar sem allir þekkja alla, hafa áhuga á náunganum og gífurlegan áhuga á ættfræði í þokkabót!


Textarnir fela ekki endilega í sér einhverjar flóknar mótsagnir sem skilja áhorfandann eftir ráðvilltan, heldur eru fullir af frásögnum úr lífinu, bæði lífi einstaklinga sem og þjóðfélagsins. Þeir eru ótæmandi brunnur af litlum hugljómunum og persónulegri og djúpstæðri sýn listakonunnar á umhverfið sitt. Vegna þessa má segja að Hulda er ekki síður ljóðskáld en listakona, með sinn einstaka stíl.



Listaverk Huldu eru einlæg. Hún teflir markvisst saman táknum íslenskrar alþýðumenningar og alþjóðlegum samtímalistahugmyndum með skírskotanir bæði í samtímann og söguna þar sem hún bræðir saman koncepti og handverki. Lágmyndirnar eru snjallar lausnir á þeim vanda sem margir listamenn standa frammi fyrir, þegar þeir þurfa að sætta nútíð og fortíð í íslenskum veruleika. Hulda heldur á vit tímalausrar og þjóðlegrar alþýðumenningar til að næra andagift sína.


Verkin segja okkur litlar sögur sem við fáum sjálf að skapa; þau minna okkar á eitthvað sem við þekkjum og verða því um leið skemmtileg og vinaleg. Þau eru oft full af hlýju og kímni og laus við kaldhæðni og textarnir koma oft skemmtilega á óvart. Verkin eru ljóðrænar og sjónrænar frásagnir frekar en einhver djúp vitsmunalega „pæling”. „Hún spilar á tilfinningalega upplifun frekar en rökræna túlkun,” skrifaði einn gagnrýnandi. Verkin eru ekki uppfull af leyndum táknum eða róttækum skoðunum en tilgangurinn er ef til vill sá að áhorfandinn skemmti sér jafnvel og listakonan virðist gera. Eina sem til þarf er opinn hugur og forvitni. Fólk getur þá túlkað að vild; farið eins djúpt og það kærir sig um. Að sjálfsögðu vill Hulda fá viðbrögð við verkum sínum. „Augnabliks andköf” er nóg fyrir hana. Eitt af markmiðum listarinnar er að gleðja og næra sálina og það tekst henni mjög vel.

ORÐ OG MYNDIR Í LIST HULDU HÁKON
 

~ Ragna Sigurðardóttir
 

Hulda Hákon kom fram á sjónarsviðið sem myndlistarmaður á níunda áratug síðustu aldar, þegar margt var á döfinni. Póst-módernismi, fígúratífur ný-expressionismi hinna Neue Wilde, feminismi, amerískt raunsæi, list minnihlutahópa og list frá fjarlægum löndum og þriðja heiminum naut sviðsljóssinsí auknum mæli. Eitt af því sem einkenndi tímabilið var ríkt samspil orða og mynda.


Orð í myndlist hafa birst á ýmsum tímabilum listasögunnar. Ein fyrstu dæmin um orð á myndfleti málara eru í boðunarmyndum ítölsku endurreisnarmálaranna Fra Angelico og Simon Martini frá fjórtándu öld þar sem rituð orð á málverki birta samskipti heilags anda og Maríu meyjar. Á tuttugustu öld komu orðin inn í myndlistina af krafti í verkum Dadaista, fútúrista og súrrealista. Þau féllu í ónáð fyrir öldina miðja þegar módernisminn boðaði hreinsun málverksins af öllu sem tengdist hinum þekkjanlega raunveruleika en aftur opnaðist rými fyrir orð á myndfleti í poplist, Fluxus og hugmyndalist á síðari hluta tuttugustu aldar. 


Í Nýlistadeild Myndlista og handíðaskólans kynntist Hulda verkum Dieter Roth og annarra listamanna sem kenndir eru við Fluxus. Samspil orða og myndar hreif hana frá upphafi. Textanotkun Huldu byggir jafnt á rótgróinni sagnahefð Íslendinga og persónulegri tjáningarþörf. Yrkisefnið er hennar nánasta umhverfi, hvort sem það er heimsborgin New York þar sem hún var í námi á níunda áratugnum eða sjávarþorp í Vestmannaeyjum þar sem hún á vinnustofu, í verkum hennar skarast þessir ólíku heimar.
Hulda vinnur frummyndir sínar oftast í leir og hin beina snerting, ótruflað samband huga og handar er mikilvæg verkum hennar. Hún stefnir ekki að hnökralausri tæknilegri fullkomnun, rétt eins og takmark Neue Wilde á sínum tíma var ekki að mála sem áferðarfallegast heldur að hleypa lífi í listina. Andstætt hugmyndum rómantíkurinnar um að listamenn eigi að vera einstakir og list þeirra innblásinn afrakstur snilligáfu leggur Hulda töluvert á sig til að forðast verksummerki þjálfaðra handa. Hið ófullkomna form er ein af leiðum hennar til að afhelga listina og auðvelda hinum almenna áhorfanda að upplifa hana á jafnréttisgrundvelli. Ófullkomleikinn í verkum Huldu er ófullkomleiki lífsins, hann birtist í línum sem eru ekki alveg beinar, formum sem eru hvorki nákvæm eftirmynd raunveruleikans né snilldarlega útfærð fagurfræði í anda sígildrar höggmyndalistar.


Íslensk alþýðulist er ein af uppsprettunum að persónulegri formfræði Huldu, teikningar í handritum fyrri alda, tréskurðarmyndir, ættfræði og ýmsir annálar. Það má líka telja sagnalist til alþýðulistar, þjóðsögur, draugasögur og skrýmslasögur. Alþýðulist td. Suður-Ameríku er einnig áhrifavaldur bæði hvað varðar form og frásagnarmáta.


Alþýðulistin hefur þann eiginleika að höfða til allra, óháð menntun eða bakgrunni. Þessir eiginleikar, þjóðlegar hefðir og tækni og hugmyndafræði nútíma myndlistar eru verkfæri Huldu til að fanga hversdagsleikann, umbreyta honum og gefa honum inntak. List hennar felur í sér bæði ljóðræna hyllingu og samfélagslega ádeilu.


Textar Huldu eru oftast í formi fullyrðinga. Setningar á myndfleti gegna hlutverki titils en eru um leið vísbendingar, beina áhorfandanum í ákveðna átt en skilja hann síðan eftir í lausu lofti og láta hann sjálfan um að botna söguna. Samspil orða og mynda skapar tvíbenta merkingu, hvorutveggja er jafn rétthátt á myndfletinum og þannig opnast verkið upp til túlkunar sem fer bil beggja.
Hópmyndir Huldu af mönnum og dýrum eru í senn launfyndnar og beittar, mynd af gæsum í samspili við fullyrðingu um að fáfræðin sé annars staðar segir áleitinn sannleika um einsleitt samfélag. Í slíku samfélagi geta kviksögur líka farið eins og eldur í sinu og sett allt í bál og brand á augabragði, sannkallað “Flight of ideas”. Nándin er mikil og allir þekkja alla, einstaklingurinn býr við hlýju og öryggi en getur á sama tíma verið aðþrengdur.


Á undanförnum árum hefur list Huldu orðið æ beittari í samfélagslegri ádeilu sinni, list hennar hefur þróast í átt frá verkum sem innihéldu góðlátlega kímni með áleitnum undirtónum til verka sem stinga á kaunum en glata þó aldrei kímnigáfunni og persónulegri sýn. Í samtímanum má hugsa til listamanna eins og Tracey Emin og fjölbreyttrar nálgunar Young British Artists við myndlistina sem að hluta byggir á notkun hversdagslegra hluta til listsköpunar.


List Huldu er sískoðandi, leitandi og túlkandi. Í persónulegum verkum sem höfða til áhorfandans sem jafningja tekst henni á lunkinn máta að tengja íslenska sögu og fortíð samtímanum og atburðum á alþjóðavettvangi.

HULDA HÁKON

bottom of page